Um 17. Júní

Þjóðhátíð í sumarborginni okkar

 

Hátíðarhöld á 17. júní eru með breyttu sniði í ár vegna COVID-19 veirunnar. Borgarbúar eru hvattir til að halda upp á daginn með vinum og fjölskyldu og skreyta heimili og garða með fánum og öðru í fánalitum. 

 

Hefðbundin dagskrá

Morgunathöfn á Austurvelli verður í beinni útsendingu í sjónvarpi RÚV þar sem allir landsmenn geta fylgst með heima í stofu. Athöfnin er hefðbundin og samanstendur af ávarpi Forsætisráðherra og fjallkonan frumflytur sérsamið ljóð við tilefnið.

Að venju sjá nýstúdentar um að leggja blómsveig við leiði Jóns og Ingibjargar í Hólavallakirkjugarði að lokinni morgunathöfn á Austurvelli. Forseti borgarstjórnar flytur ávarp og skátar standa heiðursvakt.

Borgin verður skreytt með fánum og blómum.

 

Njótum dagsins og finnum fánana!

Við hvetjum borgarbúa til að skreyta hús og híbýli með íslenska fánanum og taka þátt í leiknum Teljum fána. Leikurinn er innblásin af vinsælustu afþreyingu ársins. Á þjóðhátíðardegi teljum við fána í stað bangsa. Vegfarendur geta svo reynt að koma auga á fána í gluggum, görðum, á girðingum eða annars staðar í hverfinu.  Tvö heppin hljóta glæsileg og menningarleg verðlaun fyrir fjölda fána. Verðlaunin eru gjafapoki frá Safnbúðum Reykjavíkur, árskort fyrir fjölskylduna í Húsdýragarðinn, aðgangur fyrir tvo í FlyOver Iceland og Menningarkort Reykjavíkur.  Njótum dagsins og finnum fána! Sendu inn fánatölu með nafni og símanúmeri á netfangið 17juni@reykjavik.is fyrir 20. júní nk. og vinningurinn gæti verið þinn.

 

Saga Garðarsdóttur og Katrín Halldóra ætla í skemmtilegum myndskotum að ráðleggja borgarbúum um það hvernig hægt er að halda upp á daginn með pomp og prakt  í sínum garði, götu eða næsta græna svæði í nágrenninu. Hægt verður að sjá myndskotin á Facebook síðu 17. júní

 

Fyrir þá sem ætla að bregða sér út þá verður boðið upp á létta stemningu á milli kl 13-18 með aðstoð plötusnúðs á Klambratúni og gestir geta gætt sér á veitingum úr matarvögnum og sirkuslistamenn sýna listir sínar.

Hægt verður að heyra í lúðrasveitum Í miðborginni á milli kl 13-18, sirkuslistamenn, kórar, Listhópar Hins hússins og Götuleikhúsið bregða á leik víðsvegar um miðborgina til að skapa óvæntar upplifanir.  

En eins og sagði í upphafi er fólk hvatt til að setja upp sína eigin þjóðhátíð með vinum og ættingjum. Grilla, syngja, dansa og uppgötva sirkuslistamanninn í sjálfum sér á heimavelli.