Um 17. Júní

17. júní
Þjóðhátíðin var fyrst haldin árið 1874 til að minnast þess að 1000 ár voru liðin frá upphafi Íslandsbyggðar. Hátíðin var haldin í fyrsta sinn á Þingvöllum og í Reykjavík fyrstu helgina í ágúst. Í nokkur ár á eftir voru haldnir þjóðminningardagar þessa helgi og enn er haldinn frídagur  verslunarmanna og þjóðhátíð í Vestmannaeyjum á þessum tíma árs.
 
Fyrst var haldið opinberlega upp á 17. júní árið 1911 á 100 ára afmæli Jóns Sigurðssonar en 17. júní varð ekki þjóðhátíðardagur Íslendinga fyrr en með stofnun lýðveldisins árið 1944.
 
Í Reykjavík hefur þjóðhátíðardagurinn verið haldinn hátíðlegur með sérstakri hátíðadagskrá á Austurvelli, skrúðgöngum, barnaskemmtunum, íþróttum, tónleikum og dansleikjum og fer dagskráin að mestu fram utanhúss. Lengst af hafði íþróttahreyfingin veg og vanda af hátíðarhöldunum en síðari ár hefur Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur borið hitann og þungann af skipulagi hátíðahaldanna.  Frá árinu 2017 hefur skrifstofa menningarmála skipulagt dagskrá 17. júní.