Um 17. Júní

 

Þjóðhátíð í sumarborginni okkar

 

Hátíðarhöld á 17. júní 2021 verða haldin með tilliti til samkomutakmarkana. Borgarbúar eru hvattir til að halda upp á daginn með vinum og fjölskyldu og skreyta heimili og garða með fánum og öðru í fánalitum. 

 

Hefðbundin dagskrá

Morgunathöfn á Austurvelli verður í beinni útsendingu í sjónvarpi RÚV þar sem allir landsmenn geta fylgst með heima í stofu. Athöfnin er hefðbundin og samanstendur af ávarpi Forsætisráðherra og fjallkonan frumflytur sérsamið ljóð við tilefnið.

Að venju sjá nýstúdentar um að leggja blómsveig við leiði Jóns og Ingibjargar í Hólavallakirkjugarði að lokinni morgunathöfn á Austurvelli. Forseti borgarstjórnar flytur ávarp og skátar standa heiðursvakt.

Borgin verður skreytt með fánum og blómum.

 

Fyrir þá sem ætla að bregða sér út þá verður boðið upp á létta stemningu á milli kl 13-18 með aðstoð plötusnúða í Hljómskálagarði og á Klambratúni og gestir geta gætt sér á veitingum úr matarvögnum og sirkuslistamenn sýna listir sínar.

Hægt verður að heyra í lúðrasveitum Í miðborginni á milli kl 13-18, sirkuslistamenn, kórar, Listhópar Hins hússins og Götuleikhúsið bregða á leik víðsvegar um miðborgina til að skapa óvæntar upplifanir.  

En eins og sagði í upphafi er fólk hvatt til að setja upp sína eigin þjóðhátíð með vinum og ættingjum. Grilla, syngja, dansa og uppgötva sirkuslistamanninn í sjálfum sér á heimavelli.

Við biðjum gesti að virða fjöldatakmörk, eins metra nálægðarmörk, huga að einstaklingsbundnum smitvörnum og nota andlitsgrímur þegar við á.