Fjallkona 2009

Fjallkona árið 2009 var Elva Ósk Ólafssdóttir og flutti hún ljóðið Séra Þorsteinn Helgason eftir Jónas Hallgrímsson.

Ávarp fjallkonu

Séra Þorsteinn Helgason
Hvarmaskúrir harmurinn sári
harðar æsti minnst er varði;
vakna þeir ei, en sitja og sakna,
segjast ei skilja hvað drottinn vilji;
þegar í á und ísi bláum
ástarríka hjartað í líki
friðað og kalt er sofið, þeim svíður,
sakna og trega – en engi vaknar!

Veit þá engi að eyjan hvíta
átt hefir daga, þá er fagur
frelsisröðull á fjöll og hálsa
fagurleiftrandi geislum steypti;
veit þá engi að oss fyri löngu
aldir stofnuðu bölið kalda,
frægðinni sviptu, framann heftu,
svo föðurláð vort er orðið að háði.

Veit þá engi að eyjan hvíta
á sér enn vor, ef fólkið þorir
guði að treysta, hlekki hrista,
hlýða réttu, góðs að bíða;
fagur er dalur og fyllist skógi
og frjálsir menn, þegar aldir renna;
skáldið hnígur og margir í moldu
með honum búa – en þessu trúið!

Veit þá engi að eyjan hvíta
átt hefir sonu fremri vonum,
hugðu þeir mest á fremd og frægðir,
fríðir og ungir hnigu í stríði;
svo er það enn, og atburð þenna
einn vil eg telja af hinum seinni:
Vinurinn fagri oss veik af sjónum
að vonum, því hann var góður sonur.

Og góður sonur getur ei séna
göfga móður með köldu blóði
viðjum reyrða og meiðslum marða,
marglega þjáða, og fá ei bjargað.
Guð er á himnum heima faðir
og hrelldra barna, hvað sem veldur.
Særði bróðir! siginn í værðir,
hann sá þig glöggt undir ísi bláum.